Metnaður

Já við höfum sko alls konar metnað mannfólkið. Ég var að lesa viðtal við ungan mann sem heitir William Heimdal og hann ætlar að verða frægari málari en Rembrandt og Munch. Það er gott að hafa metnað og mikið vildi ég að ég væri með eitthvað áhugamál og metnað í því núna, en það hef ég ekki. Ég veit ekki hvort það sé vegna þess að ég er orðin 60 ára og hreinlega bara löt eða vegna alls sem hefur gengið á síðustu árin og brotið mann niður og veikt taugakerfið.

Ef það er bara leti og aldurinn og að ég tala nú ekki um breytingarskeiðið sem hefur aldrei hrjáð okkur konur eins og núna. Eða ef það er Covid og veikindi og síðan missir allra þeirra sem ég missti í kringum covid þá skiptir það svo sem ekki máli, málið er að maður verður að fara af stað og finna eitthvað. Og ég er á höttunum eftir einhverju núna. Ætla að byrja að reyna að blogga oftar því einu sinni fannst mér það svo gaman og líklega finnst mér það ennþá ef ég gef mér tíma og læt ekki “letina” trufla.

En til að blogga þarf maður hugmyndaflug og það er eins og ég hafi týnt því í Covid, get ekki einu sinni látið mér detta í hug nýjar gönguleiðir fyrir mig að fara og reyndar get ekki heldur ímyndað mér mig að ganga án Erro en hann er orðinn gamall og með ónýtt hné svo gönguferðir eru ekki lengur fyrir hann.

Kannski ef ég bara byrja að fara í göngutúr, þá kemur hugmyndaflugið, kannski bara ef ég byrja að skrifa eitthvað þá kemur hugmyndaflugið og þegar það er komið, þá langar mig að finna aftur húmorinn, held að það sé ekki löng leit að honum en maður veit aldrei. Hérna einu sinni gat ég skrifað heilt blogg um næstum ekki neitt og allir hlógu að því. Ég þarf að finna þetta aftur.

Og já ég fann einhverja september áskorun að taka mynd á dag og verkefnum er úthlutað, ég byrjaði svo sem í gær og tók mynd af ljósum og skuggum og á að taka mynd af fugli í dag, en það verður þá í fyrsta sinn sem ég mynda fugl. Ég hef myndað flugur en aldrei fugla. Við erum nú með ansi fallega fugla hérna í garðinum sem heita Skjór svo það ætti ekki að vera svo erfitt fyrir mig nema að ég hef aldrei haft þolinmæði, þess vegna er ég ekki fuglaljósmyndari þar sem þá þarf að sitja og bíða og bíða og bíða eftir rétta augnablikinu. En ég ætla að prófa í dag og það fyrir hádegi því það spáir rigningu eftir hádegi og alla næstu daga fram á sunnudag. Hitastigið hefur fallið hjá okkur og nær ekki lengur 20 gráðunum, ég mögulega get bráðum farið að fara í úlpuna mína sem ég keypti fyrir afmælispeningana mína í vor. En hún fór bara beint á snagann þegar ég kom með hana til Noregs og hefur hangið þar óáreitt alveg síðan.

Þetta er myndin sem ég tók og birti á ljósmyndavefnum í gær “Ljós og skuggar”. Málið er að ég er með svo geggjaða rauða plastmyndir í gluggunum hérna í eldhúsinu sem varpa rauðum ljósum út um allt og þær eru svona útskornar eins og munstrið á borðinu sýnir, elska þegar sólin skín þarna inn og ljósin og skuggarnir leika um alla íbúðina hjá okkur. Elska líka allt þetta fallega græna á borðinu hjá mér.

En jæja ég ætlaði ekki að hafa fyrsta bloggið eftir hlé margar blaðsíður en það er greinilega gott að kveikja á kerti, fá sér kaffi í bolla og byrja að skrifa áður en maður lætur SoMe glepja sig á morgnanna, því ég fann þetta koma bara um leið og ég leyfði fingrunum að leika lausum á lyklaborðinu.

Svona í lokin þá ætla ég að sýna ykkur sjálfsmynd sem þessi ungi maður með metnaðinn málaði af sjálfum sér og jú jú hér er heilmikill metnaður.

Þangað til næst, ykkar Kristin á Nesan

BrainyQuote of the day:

If you can’t convince them, confuse them.Harry S Truman

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.