Bílakvíði!

Featured Post Image - Bílakvíði!

Er einhver sem kannast við þetta? Ég er með ofboðslegan bílakvíða og hann bara versnar og versnar og ég get svo svarið það að ef ég þyfti ekki bíl til að fara í vinnuna þá myndi ég hreinlega hætta að keyra bíl. Ég man frelsið þegar við bjuggum í miðbænum í Mandal og ég með heimaskrifstofu að þurfa aldrei að keyra bílinn, geta labbað allt sem ég ætlaði mér, strætóstoppustöð á móti húsinu okkar og allt daglegt í göngufæri. Enda labbaði ég miklu meira þegar við bjuggum þar heldur en hérna í sveitinni þar sem samgöngur eru verri í dag en frostaveturinn mikla á Íslandi.

Mynd fengin að láni hjá FreePik

En þetta með bílakvíðann getur alveg legið niðri í einhvern tíma en ef bíllinn svo bilar þá poppar þetta upp alveg á núll einni. Þetta er sérstaklega vont þar sem við erum bara með einn bíl þannig að ef hann bilar er allt stopp hjá mér nema ég fái leigubíl á verkstæðinu. Þráinn getur labbað, hjólað og mótorhjólað í sína vinnu en ef ég ætlaði að taka strætó í vinnuna þá þarf ég að taka hann klukkan 7 og kemst til baka kl. 15 en ég vinn frá 8 til 11 svo þetta er að sjálfsögðu ekki val. Fallegi Volvoinn okkar er búinn að vera óþekkur núna allan ágúst og september, fyrst völdum við að skipta um tímareim og það er allt gott og blessað. Þá bilaði AC í bílnum og eins og hitinn er búinn að vera hérna í sumar þá er ekki hægt að keyra bíl án AC svo það var næst. Svo var ég að keyra þegar ég heyri eitthvað mjög skrítið hljóð í bílnum en hafði farið stutt svo ég keyrði í panikk heim svo Þráinn gæti kíkt á bílinn og kemur þá í ljós að plasthlífin sem er undir bílnum utan um vélina hafði losnað og ég búin að keyra með hana og næstum draga á eftir mér eða undan mér, ég veit ekki alveg hvernig hægt er að orða þetta, en Þráni tókst nú að bráðabirgðar laga þetta með nýjum skrúfum á meðan beðið væri eftir nýrri hlíf. Hvað gerist þá, kona heyrir hljóð í bílnum og í þetta sinn er eins og það séu dempararnir eða eitthvað álíka, og já ég sem heyri ekki talað mál heyri öll hljóð og jafnvel fótartak á pallinum og hæðinni fyrir neðan mig þegar ég er uppi.

Mynd fengin að láni hjá FreePik

Bifvélavirkinn okkar sagði einu sinni við Þráin, hvað getur konan þín ekki bara hækkað í útvarpinu, ha ha ha, nei þetta er ekki fyndið því auðvitað vil ég heyra aukahljóð í bílnum og greina bilunina snemma og gera við. Heyrðu það kom í ljós að gormarnir í dempurunum höfðu slitnað, eða alla vega annar þeirra en við skiptum þá um báða svo hinn slitni ekki einhver daginn líka. Svo erum við með bílinn í nokkra daga þegar kona heyrir aftur hljóð og það er meira svona í framdekkinu farþegamegin. Og ég í panikk bið Þráin að kíkja á dekkin og bremsuklossana því mér fannst hljóðið aukast þegar ég bremsaði og mest ef ég stóð á bremsunni og beygði til vinstri. Hann gerir það að sjálfsögðu enda vill hann ekki hafa mig í panik kasti svona dag eftir dag en hann sá ekkert og sagði mér bara að ignora þetta, þetta væri sjálfsagt ekkert hættulegt, hljóðið kom reyndar þegar ég var að keyra götu sem var alveg nýmalbikuð og við héldum að kannski hefði farið malbikssteinn á milli bremsuklossa og disks og það sá hann þegar hann kíkti á bremsuklossana en einn lítill steinn getur hann haft svona mikil áhrif? Ég veit ekki en fór á bílnum í vinnu, passaði mig að gíra mig niður frekar en að bremsa og helst að taka borgarstjóra beygjur svo ekki reyndi mikið á þetta. Og jú jú mér tókst að fara fram og til bara í vinnu og aftur heim en ekki sátt og þá pantar Þráinn tíma fyrir bílinn að láta setja nýju mótorhlífina á bílinn þar sem hún var komin og ég spurði hvort hann hefði ekki spurt þá út í hljóðið sem ég var að heyra og hann sagði nei, ég veit alveg hvað þetta er núna. Og ég bara, ha! Hvað er þetta? Þetta er dekkið eins og þú hélst, rærnar voru byrjaðar að losna, þá hafa viðgerðarmennirnir tekið dekkin af þegar þeir setja demparagormana í bílinn og það þarf alltaf að herða upp á rónum nokkrum dögum seinna og það var það sem var að. Eins gott að konan hafi ekki verið ein úti á sveitarvegi með 3 hjól undir bílnum. Úff mikið var nú gott að keyra bílinn í gær og engin aukahljóð og nýja hlífin fer undir hann á morgun og þá ætla ég að segja honum (bílnum) að hann sé búinn með skammtinn þetta árið, þetta er orðið gott og ég þarf ekkert á þessum kvíða að halda, fæ alveg kvíðaköst yfir öðrum hlutum (og það dugir mér) en sem betur fer eru þau ekki eins slæm og bílakvíðaköstin mín.

Mynd fengin að láni hjá FreePik

Sko þegar ég fór að hugsa þetta þá mundi ég hvar og hvenær þetta byrjaði. Ég fékk lánaða ljósbláa Lada Samara hjá Konna afa þegar við vorum að flytja einhvern tíma í Hafnarfirði, þetta er áður en Mirran fæðist og það er ekkert annað en að ég stoppa í Kaplakrika á rauðu ljósi og bíllinn drepur á sér og fer ekkert í gang aftur. Vitiði ég fæ næstum kvíða við að skrifa þetta, jesús á föstudegi þar að auki. Hvað gerir kona þá? Jú jú hún hringir í manninn sinn sem svo hringir í lögguna sem ætlaði nú ekki að skipta sér af þessu fyrr en hún heyrði hvar ég væri stödd. Ég man þeir komu, ég í panikk og þeir hringdu á dráttarbíl og jú jú málið reddaðist og Þráinn sagði við mig að það hefur örugglega enginn verið fúll út í mig í þessum aðstæðum, heldur allir sýnt samúð og samkennd. Já líklega en ég get ekki að þessu gert, ég þoli ekki að lenda í aðstæðum þar sem ég hef ekki stjórn á sjálfri mér og lífinu mínu.

Mynd fengin að láni hjá FreePik

Og þá erum við komin að annarri fötlun minni og það nefnilega þetta að hafa ekki stjórnina. Ég get ekki, ekki vitað hvert við erum að fara og það sýndi sig nú bara vel um daginn þegar nágranni okkar átti stórafmæli og okkur var svona óformlega boðið og ég hélt þetta yrði bara í garðinum hjá honum og var bara í sumarkjól og sandölum en svo kom vinur hans sem stjórnaði þessu og safnaði fólki í bíla því það átti að fara eitthvað og já ok, ég fylgdi með og þá var reyndar bara farið heim til þessa manns og uppá hlöðuloft og borðaðar bökurnarkartöflur með gúmmulaði og farið í nokkra skemmtilega leiki fyrir 70 ára afmælisbarnið og svo…. áttum við að koma út og enginn sagði hvert eða hvers vegna og fólk er þarna klætt til að fara ut på tur en ekki í sumarkjól og sandölum en það er sem sagt byrjað að labba og labba og labba og labba meðfram á og inní skóg og aldrei fær maður að vita af hverju eða hvers vegna og ég ekki kjörklædd fyrir aðstæður. 4,5 km voru gengnir og skapið í mér orðið þannig að ég var hreinlega að fara að gráta yfir óþægindunum sem ég varð fyrir vegna þessarar óvissu, svo þegar allt fólkið stoppaði allt í einu þá sagði ég Þráni að ég ætlaði bara að labba heim sem ég og gerði, aðra 4 km. á sandölum. Frétti svo eftirá að það var farið í einn leik sem var alltaf leikinn í barnaafmælum hérna í sveitinni í gamla daga og sá leikur hefði getað verið leikinn á planinu fyrir utan hlöðuna en það sem er fyrir mestu afmælisbarnið skemmti sér vel þó ég hefði farið í mínus af því að ég vissi ekki hvert við værum að fara og gera hvað. Ég hef alltaf verið svona og þess vegna svo oft verið í stjórn starfsmannafélaga því þá veit ég alltaf hvað á að gera, líka í óvissuferðunum.

Mynd fengin að láni hjá FreePik

Þangað til næst, ykkar Kristín á Nesan.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.