Að taka til í sjálfri sér!

Ég er að taka smá til í sjálfri mér þessa dagana og fylgist með Lindu P í einhverju sem hún kallar kröftugri á 30 dögum og er með á Instagram.

Við erum búin að fara yfir það að ég þarf að hætta að efast um sjálfa mig, muna að ég get næstum allt sem ég ætla mér og það er búið að vera kvartlaus dagur sem reyndi lítið á mig því ég held ég sé ekki mikið að kvarta, samt auðvitað geri ég það og það kemur ábyggilega í skömmtum en alla vega kvartlausa daginn kvartaði ég ekki neitt. Svo á ég að vera jákvæðari og því tek ég fagnandi.

Sko ég er búin þessa helgi að vera duglegri að gera hlutina sjálf af því að ég get það en ekki biðja Þráin um það af því að hann gerir það betur og það er léttara fyrir hann. Ég td. klippti og snyrti hekkið okkar með rafmagnshekkklippum en sko ég hef einu sinni áður prófað það og klippti rafmagnssnúruna í sundur svo í gær vafði ég henni um hálsinn á mér svo hún væri ekki að þvælast fyrir og mér tókst að klippa það sem ég vildi klippa og það án aðstoðar, næstum því…. ég næ nefnilega ekki að halda klippunum upp fyrir höfuðið á mér til að klippa ofan af runnanum svo þar kom Þráinn inn og kláraði verkið.

Mynd fengin að láni hjá FreePik

Og í gær var áskorunin að gera eitthvað sem mér finnst skemmtilegt. Og ég var nú komin á fætur uppúr kl. 9 og það spáði sól en það var nú bara miklu betra veður daginn áður með næstum engri sól en logni heldur en í gær með sól og helv. roki svo hitinn varð aldrei meiri en 15 stig og ég fór út að slá grasið, fékk að prófa nýju rafmagnssláttuvélina hans Jans nágranna og hún er æði, og mesta æðið er að það heyrist svo lítið í henni að ég myndi geta slegið á sunnudögum. En hérna í Noregi eða alla vega Suður Noregi getur þú fengið á þig kæru og sekt ef þú ert með hávaða á sunnudögum og þá þýðir ekki að slá gras með bensínvél því það hljómar um allt nágrennið. Og já talandi um hávaðavélar, pælið í því að það er ekki búið að finna upp hljóðlátar ryksugur og sláttuvélar en það eru til bílar sem þú heyrir ekkert í og djö. er það óþægilegt þegar svoleiðis bíll keyrir næstum uppað þér, hljóðlaust. Úff.

En sem sagt aftur að áskoruninni í gær að gera eitthvað sem MÉR finnst skemmtilegt. Humm, það er ótrúlega skrítið að finna ekki uppá neinu, svo ég datt bara í það að afþýða frystikistuna og taka til í henni en ekki get ég sagt að það sé skemmtilegt. Ég hafði nú smá áhyggjur því mér leist ekkert á það að ég væri ekki að geta klárað þetta verkefni þegar ég seinni partinn uppgötva að það er byrjuð ný sería af Beat for Beat svo ég sótti mér bara hvítvín í glas og skellti þættinum á og við hjónin nutum þess að horfa á saman, syngja hástöfum með og skemmtum okkur sko konunglega, því þetta er ein af mínum uppáhaldsathöfnum og það er að horfa á svona músíkkeppnir og þær byrja alltaf á haustin svo haustin eru alveg ljómandi fín árstíð fyrir utan að veðrið breytist, þá er tíminn með kertaljós og söngvakeppnir á föstudögum og laugardögum alveg mitt uppáhalds.

En í dag er sem sagt mánudagur, ég var vöknuð kl. 5 og fann að ég náði ekki að sofna aftur, kom hérna niður og kveikti upp og kveikti á kertum og sit hérna núna í kósí stemningu og blogga með kaffi í bolla. Í dag verður nú ekki mikið skemmtilegt gert, erum að fá mann heim til að tengja nýjan ljósleiðara í húsið og hlífin á mótorinn á bílnum verður sett undir svo ég ætti að verða kvíðalaus alla vega vonandi næsta mánuðinn eða þar til það fer að koma hálka, þá byrjar líka bílakvíði hjá mér og ég helmingi lengur á leiðinni í vinnu þar sem ég keyri svo hægt (alla vega til að byrja með, ég sjóast svo þegar líður á).

Svo þangað til næst, ykkar Kristín á Nesan.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.