Einkennilegt….

Featured Post Image - Einkennilegt….

Það er einkennilegt þegar maður lætur ákveðin verkefni alltaf sitja á hakanum, þetta þurfa ekki endilega að vera leiðinleg verkefni, heldur bara verkefni sem ekki eru gerð dags daglega. Eins og að mála tvær hurðar hérna í horninu hjá mér, ég er búin að eiga málninguna síðan fyrir brúðkaup en eins og Eyjamönnum er tamt þá segjum við á Nesan núna fyrir og eftir brúðkaup (hjá Mirru og Helge) í staðinn fyrir, fyrir og eftir gos enda of langt um liðið síðan gosið var að maður sé að nota þá viðmiðun lengur. En sem sagt hurðarnar eru grænar og þetta er einn af þeim óskiljanlegu hlutum sem ég hef ekki enn framkvæmt hérna í húsinu. Mér þykir samt ekkert leiðinlegt að mála hurðar og glugga og ég er búin að setja málningarfötuna við hliðina á annarri hurðinni en úps svo fékk ég í bakið …. en svo er ég betri og … enn gerist ekkert. Nema kannski í dag, fyrst ég er búin að segja ykkur frá þessu, þá er komin pressa á mig, taka mynd fyrir og eftir og henda hérna inn eftirá.

Fyrir:

Reyndar sagði Kolla frænka að þetta væru svona kóngahurðar og henni fannst þær fallegar en ég hef aldrei verið hrifin af þeim en þær kannski heldur ekki á stað sem ég sé þær mikið fyrr en núna undir það síðasta þá hef ég verið á online fundum og þær sjást hérna á bak við mig, já þær eru nefnilega á bak við mig svo þess vegna trufla þær ekki mikið en þegar maður situr með nýju fólki á online fundum þá allt í einu eru hurðarnar heldur betur farnar að trufla. Svo kannski ég byrji á þeim í dag, hálfnað verk þá hafið er, sagði amma alltaf.

En annars er lítið að frétta á Nesan nema það varð stórt stökk í hitanum hjá okkur núna í vikunni en hitinn hafði farið uppí 16 til 18 gráður í síðustu viku en fór niður í -1 núna í gær og fyrradag og spáði snjókomu í Agder fylki. HVAR í Agder fylki, ég sko bý þar og þoli ekki svona fréttir, getiði ekki verið dálítið nákvæmari, þarf ég að setja nagladekkin undir núna, eða er ekki að fara að snjóa hjá mér. Á ég að keyra á 20 km hraða í vinnuna eða bara á 80 eins og leyfilegt er? Norðmenn eru stundum svo ónákvæmir bæði í þessu og eins að vísa veginn, því þeir halda að allir þekki alla steina sem þeir þekkja svo ég vissi svo sem ekkert hvernig staðan yrði núna í morgun þegar ég vaknaði en viti menn, það var 13 stiga hiti, ennþá reyndar myrkur en ég trúi ekki að það hafi snjóað í þessum hita svo ég fer ótrauð í vinnu og legg meira að segja kannski af stað áður en birtir og já Þráinn fór bara á mótorhjólinu í vinnu í dag en við héldum að sá lúksus væri búinn en aldeilis ekki. Mikið vildi ég að hitinn hérna yrði um og yfir 8 gráður fram að jólum og snjórinn kæmi ekki fyrr en í janúar og yrði bara jafnfallinn út febrúar og þá má koma vor aftur. Mér finnst haustið of stutt, núna eru allir fallegu litirnir að fara að hverfa því laufin falla og þá verður bara grátt og ömurlegt en mér finnst það skárra ef það er hlýtt en grátt og ömurlegt og kalt úff.

Alla vega þið kannski áttið ykkur á því að ég þoli ekki veturinn, elska allar hinar 3 árstíðirnar en veturinn er ekki mitt uppáhald og ég á það til að detta í þunglyndi og var slæm í fyrra og er hreinlega dáldið stressuð að það geti gerst aftur. Ég sem sagt endaði á þunglyndislyfjum í fyrra en hef ekki þurft á þeim að halda frá því vorið kom. Ég ætla samt ekki að verða þunglynd af stressi yfir að verða þunglynd, alls ekki en ég þekki sjálfa mig og þarf að vera vakandi yfir mér og hvernig mér líður.

Mynd fengin að láni hjá Freepik

Eitt sem hefur hjálpað mér að halda góða skapinu er að blogga svo ég lofa að því ætla ég ekki að hætta aftur (hafði ekki bloggað í meira en 1 ár þegar ég byrjaði aftur núna um daginn) svo ef þetta fer að verða of mikið bull á köflum þá er það af því að ég hef ekki komist út úr húsi til að viðra sálina og hugsanir mínar.

Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

Ég fór að sjálfsögðu að mála eftir vinnu og náði 2 umferðum, þarf að kaupa meiri málningu í dag til að klára, þetta verður svolítið mikið bjartara um að litast með hvítum hurðum.

Og kláraði svo daginn eftir. Það tók sem sagt ekki meira en 2 daga að mála tvær hurðar og það bara af því að mig vantaði meiri málningu. Annars hefði ég klárað þetta á einum degi.

One comment Einkennilegt….

Erna Vilbergs says:

Knúsa á þig elskan þú meikar þetta ♥

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.