Jólin, jólin, jólin okkar!

Eftir dásamlega jóladaga með krökkunum okkar, tekur við heil vika í fríi hjá okkur báðum áður en við fáum gesti yfir áramótin. Já já ég veit við elskum að hafa gesti og helst fullt hús oftast. Auðvitað elskum við líka að vera bara ein heima en eftir 41 og hálfs árs sambúðar þá getur það að vera ein heima orðið pínu leiðigjarnt ef ekki er fundið uppá einhverju sem brýtur daginn upp.

Svo á annan í jólum var bara gott að vera ein heima og gera ekki neitt nema búa til tartalettur úr hangikjötsafgöngum og horfa á jólabíó.

En daginn þar á eftir þá þurftum við nú smá tilbreytingu og skelltum okkur í göngutúr út að fossi með Erro. Málið er að eftir að hann sleit krossböndin í hnénu á sér þá getum við ekkert farið í langa göngutúra með hann svo 10 til 15 mín er perfekt og passar okkur svo sem fínt í frostinu að vera ekkert allt of lengi úti enda búin að vera lasin og erum hvorugt laus við hósta og slím.

Notalegur göngutúr í sveitinni okkar og svo skelltum við heim að spila Mexican train og höfðum það kósí.

Svo í gær þá þurfti líka að brjóta upp daginn, ég fékk þá dillu í hausinn að það bráðvantaði gestarúmföt og það yrði að græja það í dag því það kæmu jú gestir um áramótin. Gestir og gestir myndu nú einhverjir segja og já það er svo sem rétt Anna mín og Anders eru eiginlega heimilsföst hérna hjá okkur og varla neinir gestir en jú rúmföt þurfa þau að hafa ekki satt?

Svo við skelltum okkur inn í Mandal, keyptum rúmföt og vín og eitthvað í matinn fyrir áramótin og enduðum á göngutúr eftir Sjøsanden og Guð hvað ég fattaði að ég sakna Mandal, ég verð að vera duglegri að keyra þangað og fara í göngutúra. Erro var nú heldur betur að elska þetta og við fórum bara fetið því hann þurfti að þefa svo mikið á nýjum slóðum.

Ég elska að heyra sjóinn klappa steinunum og lyktin og og og bara allt.

Svo fórum við að spá í hvað í fjáranum er þetta þarna í Kleven sem stendur uppúr hvar sem þú ert í Mandal? Svo að sjálfsögðu endaði göngutúrinn á bíltúr til að skoða og okkur sýnist þetta nú vera slippur fyrir olíuborpalla.

Jæja svo var bara aftur farið heim, allir sælir eftir Sjøsanden göngutúrinn og haldið áfram að spila Mexican train og kós, með jólaljós og kerti. Sem sagt kerti og spil.

Eins og þið sjáið á myndunum hérna að ofan þá var enginn snjór hjá okkur um jólin og mér svo sem alveg sama, svo lengi sem það er ekki frost og hálka, því þá vil ég frekar snjóinn.

Ég fór bara snemma í bólið í gærkvöldi eða um kl. 22 en kom svo niður aftur um miðnætti að fá mér vatn að drekka og viti menn, það var allt á kafi í snjó eftir 2 tíma, það var ekki byrjað að snjóa þegar ég fór upp. Svo svona lítur allt út í dag og spurning hvernig göngutúrinn í dag verður, eða verður kannski enginn göngutúr, hundurinn þarf nú að hvíla sig líka. Væri kannski lurt að fara bara í heita pottinn í dag í snjónum. Hver veit!

Og meðan ég sit inní hlýjunni með eld í viðarofninum okkar og blogga þá er húsbóndinn að gera gagn.

Spurning að gera fleiri engla í dag áður en þessu rignir niður eða bara njóta þess að vita að ég sé búin að gera engil úti í garði þennan veturinn, kannski einu sinni sé bara alveg nóg.

Þangað til næst, ykkar Kristín á Nesan.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.