Jæja þá er komið að úrslitaleiknum í heimsmeistarakeppninni í fótbolta og af því tilefni höfum við boðið Jan nágranna að koma og borða middag (eins og Norðmaðurinn kallar það) og horfa á leikinn, það verður kannski kíkt í einn eða tvo bjóra með þessu eins og sæmir góðum fótboltaáhangendum.
Ég byrjaði að sjálfsögðu á að gera íslenska kokteilsósu til að hafa með þessu en það er bara majones, tómatssósa, smá sinnep og 3 dropar af sítrónusafa.
Svo krydda ég kjúklinginn með salti, kjöt og grillkryddi og sítrónupipar en ég nota þá kryddblöndu nánast eingöngu á allt kjöt. Ég leyfi kjúklingnum að standa krydduðum í klukkutíma áður en ég elda hann.
Franskarnar eru gerðar úr stórum kartöflum sem ég kaupi af bónda en ég byrja á að þvo þær og skræla og síðan er Tupperware supers slicerinn tekinn úr skápnum og í honum skerum við kartöflurnar. Þær síðan látnar liggja í köldu vatni í 30 mín. en svo þurrkaðar með því að leggja þær á eldhúsbréf og þerra.
Jæja ég ákvað að setja kjúllann fyrst í Loft því hann helst heitari lengur en franskarnar. Stillti hitann á 185° og hafði í 20 mín. Svo setti ég kartöflurnar og hafði þær á 130° í 10 mín en svo 200 í 20 mín.
Þetta var geggjað gott og kokteilsósan líka, tók enga mynd af henni. Norðmanninum fannst hún æðisleg.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna og besti vinurinn Loftur.