Mánudagsslen eða hreinlega leti

Það er allt að verða tilbúið fyrir jólin og ég var búin að vinna í morgun fyrir kl. 11 og svo fór Þráinn í vinnu uppúr kl. 13 og þannig verður þessi vika, við hittumst alveg, en meira svona áður en ég fer í vinnu og svo áður en hann fer í vinnu og við gerum aldrei neitt saman vikuna sem hann er á kvöldvakt. Stundum leiðist mér óskaplega þessa viku en verð ekki beint einmanna en meira svo löt og leið.

Og nú á meira að segja að elda mat sem er keyptur næstum tilbúinn eða þannig en það er svínasnitsel í raspi, eitt það ódýrasta sem maður kaupir hér í búðunum og já ég viðurkenni það bara að mér finnst þetta geggjað gott. Þetta er nánast eini maturinn sem ég elda ekki frá grunni en ég geri þó heimagerða kartöflumús með þessu.

Þvo og skræli kartöflurnar og sker í litla bita svo þær þurfi styttri tíma í suðu. Set svo mikið af smjöri og stappa þær í pottinum. Stundum set ég rjóma ef ég á eða oggulitla mjólk en oft læt ég bara smjörið duga. Ég set ekki lengur sykur í kartöflumús eins og ég gerði hérna áður fyrr en það er nú líka vegna þess að við höfum tekið nánast allan sykur burtu. Takið eftir ég sagði nánast því það er ekki hægt að lifa án þess að fá sykur einhvers staðar með í matnum sínum, þó ekki sé nema bara í tómatssósunni eða jógúrtinu.

Snitselið setti ég í Loft (Airfryerinn) í 15 mín á 180 því þetta er víst foreldað en það var smá frost í sneiðunum hjá mér svo ég leyfði þeim að fá aðeins meiri tíma og mér finnst svo gott að fá svona sneiðar crispy.

Og yfirleitt þegar við erum með svona þá spælum við líka egg en af því að ég er bara ein að borða í kvöld og Þráinn fer með sinn skammt í nesti í vinnu á morgun, þá sleppti ég eggjunum eeeen við setjum alltaf steiktan lauk ofaná kartöflumúsina, veit ekki alveg hvernær og hvernig okkur datt það í hug í fyrsta sinn en það er orðið órjúfanleg regla í dag

Vonandi nær þessi mánudagsleti ekki yfir á þriðjudaginn en það er þó hætt við því þar sem allt er tilbúið fyrir jólin og þessi vika verður svona dáldið bara að vinna og bíða eftir að fara í síðustu innkaupaferðina og svo taka á móti krökkunum okkar.

Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

PS. og þar sem ég eldaði fyrir minnst 2 daga í dag þá verður ekkert eldað í Lofti fyrr en kannski á fimmtudaginn eða við sjáum til.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.