Rifsberjahlaup

Þvílíkt einfalt og gott. Já Kristín Jóna borðar núna rifsberjahlaup með ostum og ég elska þetta. Ég er svo heppin að Jan nágranni er með rifsberjarunna og ég má tína eins og ég vil hjá honum.

Rifsberjahlaup er gott með ostum, kjötbollum, ofan á brauð, með pönnukökum, vöfflum og svona mætti lengi telja. Það er mikilvægt að láta bæði stilka og óþroskuð ber fylgja með rauðu berjunum – það hjálpar við að hlaupið hlaupi.

HRÁEFNI

  • 1 kg rifsber (stilkar og óþroskuð ber fylgja með)
  • 1 kg sykur (ágætt að nota sultusykur/syltesukker)
  • 1 msk vatn

VERKLÝSING

  1. Krukkur og lok hreinsuð –  soðið í potti (suða látin koma upp – láta sjóða í 1 – 2 mínútur). Krukkurnar settar á hvolf ofan á grind
  2. Berin skoluð og sett í pott. Vatni bætt við. Sykur settur út í – blandað saman
  3. Rifsber og sykur hitað að suðu – hrært í öðru hvoru. Þegar suðan er komin upp er soðið áfram í 3 mínútur
  4. Maukinu er hellt í sigti eða sigti með grisju á milli og vökvinn látinn renna af í skál. Sigtið þarf að vera fíngert. Ef grisja er notuð verður hlaupið tærara og fer það eftir þéttleika hennar hvað mikið situr eftir
  5. Vökvanum hellt reglulega í krukkurnar – mikilvægt að gera það áður en hann kólnar og hleypur. Ágætt að nota tvær skálar og færa sigtið á milli svo að hægt sé að hella reglulega í krukkurnar. Það kemur stundum froða á yfirborðið sem gott er að taka með skeið áður en hellt er í krukkurnar – sjá mynd (froðan getur verið góð á ísinn)
  6. Þegar þessu er lokið er eldhúsrúllubréf lagt yfir krukkurnar og þær látnar kólna
  7. Lokin sett á þegar hlaupið er orðið kalt

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.